Víkjum nú sögunni aftur að Bilbó og dvergunum. Alla nóttina uppi í varðskýlinu var einhver á verði, en þegar birti með morgninum, höfðu þeir enn ekki orðið varir við nein hættumerki. En áfram héldu fuglarnir að þyrpast að í æ þéttari flokkum. Hóparnir komu aðvífandi úr suðri og krákurnar sem enn höfðu tórað við Fjallið voru sífellt að velta sér og skrækja í loftinu fyrir ofan þá.
„Eitthvað furðulegt er á seyði,“ sagði Þorinn. „Farfuglatími á hausti er löngu liðinn og auk þess eru þetta mestallt staðfuglar, starar og snjótittlingar og hingað streyma hræfuglar úr öllum áttum svo það er engu líkara en blóðug orusta sé í vændum!“
Skyndilega benti Bilbó fram fyrir sig: „Sjáiði, þarna kemur gamli þrösturinn aftur!“ hrópaði hann. „Hann virðist þá hafa komist út úr hríðinni þegar Smeyginn malaði fjallshlíðina, en varla hafa þó sníglarnir sloppið eins vel!“
Vissulega var það gamli þrösturinn og um leið og Bilbó benti á hann, flaug hann nær þeim og settist á stein rétt hjá þeim. Svo blakaði hann vængjum og kvakaði, hallaði undir flatt eins og hann væri að leggja við eyru og enn kvakaði hann og hlustaði.
„Ég held að hann sé að reyna að segja okkur eitthvað,“ sagði Balinn. „En ég get ekki fylgst með tali slíkra fugla, það er svo hratt og erfitt. Getur þú skilið þetta, herra Baggi?“
„Nei, ekki reglulega vel,“ svaraði Bilbó (í raun og veru skildi hann ekki daut), „en mér finnst eins og sá gamli sé töluvert æstur og uppveðraður.“
„Ég vildi bara að hann væri hrafn!“ sagði Balinn.
„Nú, ég hélt að þér væri lítt um þá gefið. Þú vildir sem minnst tala, ef þeir voru í nánd, meðan við vorum hér að leita.“
„Það voru krákur! Og það meira að segja óvenju andstyggilegar og tortryggilegar skepnur og eftir því frekar. Skildirðu ekki öll þau ókvæðisorð sem þær görguðu á eftir okkur? En hrafnar eru allt annars eðlis. Á sínum tíma voru þeir miklir vinir Þrórsþjóðar, oft báru þeir okkur njósn og var launað með skrautmunum sem þeir sóttust eftir til að prýða hreiður sín. Þeir eru ákaflega langlífir og minni þeirra traust og varanlegt. Þannig geta þeir varðveitt lærdóma og borið vitneskju til unga sinna á milli kynslóða. Ég þekkti marga hrafna í klettum þegar ég var dvergabarn. Sjálf hæðin þar sem við erum nú heitir Hrafnaborg því að hér fyrir ofan byrgið áttu óvenjulega vitur og fræg hrafnahjón hreiður sitt, gamli Karki og kona hans. En ég býst nú varla við að neinn lifi eftir af þeim ættstofni lengur.
Varla hafði hann lokið orðum sínum, fyrr en gamli þrösturinn skríkti hátt og var horfinn á svipstundu.
„Við getum ekki skilið hann,“ sagði Balinn, „en ég er handviss um að þessi gamli fugl skilur okkur. Gætum nú vel að og sjáum hvað gerist!“
Ekki leið á löngu áður en heyrðist mikill vængjaþytur og þrösturinn kom aftur, en nú var í fylgd með honum hinn aumasti og hrörlegasti allra gamalla fugla. Hann var að verða blindur, gat varla flogið og hausinn var næstum allur sköllóttur. Þetta var geysistór og forgamall hrafn. Hann hlammaði sér stirðlega á jörðina hjá þeim, blakaði hægt vængjum og rambaði til móts við Þorin.
„Ó, Þorinn Þráinssonur og Balinn Fundinssonur,“ krjáaði í honum (og meira að segja Bilbó gat auðveldlega skilið hvað hann sagði, því að hann mælti á venjulegu máli en ekki fuglamáli). „Ég er Hróki sonur Karka. Nú er Karki fallinn frá en þið þekktust vel. Nú eru hundrað ár og þrjátíu og fimm síðan ég kom úr eggi, en ég gleymi engu sem faðir minn sagði mér. Nú er ég orðinn hrafnahöfðingi Fjallsins. Við erum að vísu fáir en minnumst vel konungsins til forna. Flestir mínir þegnar eru nú horfnir í fjarska, því að mikil tíðindi eru að gerast í suðrinu — sum gleðitíðindi fyrir ykkur, en önnur óhagstæðari.
Sjá! Fuglarnir flykkjast aftur til Fjallsins og á Dal úr suðri, austri og vestri, því að orð berast út, að Smeyginn sé dauður!“
„Dauður! Dauður?“ hrópuðu dvergarnir hver upp í annan. „Dauður! Þá höfum við ekkert þurft að óttast — og fjársjóðurinn er okkar!“ Þeir stukku allir á fætir og fóru að dansa og láta öllum illum látum af einskærri gleði.
„Já, hann er dauður,“ sagði Hróki. „Sjálfur þrösturinn, megi fjaðrir hans aldrei falla, sá hann drepast, og við getum treyst orðum hans. Hann sá drekann falla í orustu við íbúa Ásgerðis fyrir þremur nóttum undir rísandi tungli.“
Það tók Þorin langan tíma að róa dvergana og þagga niður í þeim svo þeir gætu hlustað áfram á frásögn hrafnsins. Að lokum, þegar hann hafði lýst allri orustunni fyrir þeim, hélt hann áfram:
„Þetta voru þá gleðitíðindin, Þorinn Eikinskjaldi. Nú getur þú snúið aftur öruggur til hallar þinnar og allir fjársjóðirnir eru þínir — í bili. En margt fleira en fuglarnir er byrjað að flykkjast hingað. Fréttirnar af dauða fjársjóðshaldarans mikla hafa borist langt og víða og lýsingarnar af auðlegð Þrórs hafa síst minnkað með árunum. Margir eru æstir í að krækja í sinn hluta af ránsfengnum. Nú þegar er stór herfylking álfa á leiðinni hingað og fylgja þeim heilu skýin af hræfuglum í von um orustu og slátrun. Á bökkum vatnsins ganga menn þrumandi um og fjölyrða um það að allar þeirra hörmungar séu ykkur dvergunum að kenna. Vesalings fólkið er nú heimilislaust og margir hafa dáið, því að Smeyginn eyddi borg þeirra. Þeir vonast líka eftir að finna uppbót í fjársjóði þínum og hyggjast hirða sinn skerf að þér dauðum eða lifandi.
Þú verður nú að ákveða þig af eigin visku. Þið eruð aðeins þrettán eftir, og er það lítið, af hinni miklu Durins þjóð sem eitt sinn dvaldist hér en hefur síðan dreifst um víða veröld. Ef þið viljið hlýða mínum ráðum, treystið þá ekki á Borgarstjóra þeirra Vatnabúa, betri er sá sem skaut drekann með boga sínum. Bárður heitir hann og er ættaður af Dal, af ætt Girions. Hann er harðskeyttur maður en heiðarlegur. Við vildum aftur fá að sjá hér frið meðal dverga, manna og álfa eftir hina áralöngu eyðingu, en það gæti kostað ykkur of fjár í gulli. Ég hef lokið máli mínu.“
Þá rauk Þorinn upp í fári miklu: „Þakkir áttu skildar Hróki Karkasonur. Ég mun aldrei gleyma þér né þinni þjóð. En eitt vil ég bara láta þig vita, að engu gulli skulu þjófar stela, né ofbeldismenn ræna mig, meðan ég er enn á lífi. Ef þú vildir ávinna þér enn meiri þakkir okkar, gætirðu fært okkur fregnir af því þegar þeir nálgast. Líka vildi ég biðja þig ef nokkrir ykkar eru enn ungir og sterkir á væng, að þið létuð sendiboða fara til frænda okkar í Norðurfjöllum bæði fyrir vestan og austan og segið þeim af vanda okkar. En farið þó sérstaklega til frænda míns, Dáins í Járnhólum, því að hann ræður yfir fjölskipuðum og vel vopnuðum dvergaher og býr líka næst okkur. Biðjið hann að hraða för.“
„Ég mun ekki frekar skipta mér af því, hvort ráð þín eru góð eða slæm,“ krjáði gamli Hróki, „en ég skal gera hvað ég get.“ Svo flaug hann hægt í burtu.
„Snúum strax aftur til Fjallsins!“ hrópaði Þorinn. „Við megum engan tíma missa.“
„Við höfum heldur engan mat til að missa!“ hrópaði Bilbó, sem alltaf var hagsýnn í búrfræðum. Sjálfur hafði hann haldið að þessu ævintýri ætti nú réttilega að vera lokið með dauða drekans — en nú kom í ljós að það var mesti misskilningur — en sjálfur hefði Bilbó strax verið reiðubúinn að gefa eftir mest af sínum hlut í fengnum ef það mætti aðeins verða til að ljúka þessu friðsamlega.
„Aftur til Fjallsins!“ æptu dvergarnir í kór eins og þeir hefðu ekki einu sinni heyrt síðustu athugasemd hans um matarbirgðirnar, og hann varð þá líka að fylgja þeim til baka.
Þar sem helstu atburðir, þeirra er samhliða gerðust, hafa nú þegar nokkuð verið raktir, býst ég við að þið gerið ykkur grein fyrir því að dvergarnir höfðu enn nokkra daga til stefnu. Þeir tóku sig fyrst til og gerðu ýtarlega úttekt á hellunum. Þá komust þeir að því, eins og þá hafði grunað, að einungis Framhliðið væri fært. Öll hin hliðin (auðvitað fyrir utan leynidyrnar) hafði Smeyginn fyrir löngu brotið og bramlað og sáust engar leifar þeirra lengur. Þeir hófu því að vinna af miklum krafti að því að styrkja varnir Aðalhliðsins og gera nýjan stíg út frá því. Hér skorti auðvitað ekki margvísleg verkfæri til námugreftrar, steinhöggs og múrsmíði en allir dvergarnir voru einmitt mjög færir í því fagi.
Á meðan þeir unntu sér engrar hvíldar við þetta, fluttu hrafnarnir þeim stöðugt fréttir. Þannig fréttu þeir að álfakóngurinn hefði sveigt af leið niður að vatninu, en við það fengu þeir lengri frest. Þá bárust þeim þau góðu tíðindi að þrír af hestum þeirra hefðu sloppið og gengju lausir niðri á bökkum Hlaupár, ekki langt frá birgðastöð þeirra. Svo meðan hinir héldu áfram virkjagerðinni, voru Fjalar og Kjalar sendir af stað undir leiðsögn hrafns til að handsama hestana og flytja með þeim upp eftir allar þær vistir sem þeir gætu borið.
Þeir voru fjóra daga í burtu og þá var svo komið að þeir vissu að sameinaður her Vatnabúa og Skógarálfa skundaði í áttina að Fjallinu. En nú voru dvergarnir orðnir djarfari, því að þeir höfðu nægar vistir í margar vikur ef vel var á haldið — auðvitað mestmegnis kram sem þeir voru orðnir óskaplega leiðir á. En kram var þó allavega betra en ekki neitt — og þá voru þeir líka búnir að loka hliðinu með vegghleðslu úr kanthöggnum steinum, að vísu án steinlíms en til að bæta úr því var veggurinn hafður afar þykkur og hár og lá þvert yfir innganginn. Í vegginn voru raufar sem þeir gátu horft (eða skotið) út um, en enginn gangur. Sjálfir klifu þeir inn eða út með lausum stigum og drógu efnivið að sér með taugum. Til að hleypa árstraumnum út höfðu þeir hlaðið lágan boga undir vegginn, en breytt svo þröngum farveginum að löng uppistaða myndaðist allt frá klettinum í fjallinu og út að fossbrúninni þar sem áin féll niður á Dal. Nú varð ekki komist að hliðinu (utan syndandi) nema eftir mjórri syllu undir klettinum, það er á hægri bakkanum séð frá Hliðinu. Þeir teymdu hestana aðeins að þrepunum yfir hrundu brúnni, þar tóku þeir af þeim og sögðu þeim að snúa aftur til fyrri húsbænda sinna og sendu þá mannlausa af stað í suðurátt.
Að því kom eina nóttina, að mikið ljóshaf, eldar og blys sáust skyndilega fyrir sunnan á Dal.
„Þeir eru komnir!“ hrópaði Balinn. „Þetta eru voldugar herbúðir. Þeir hljóta að hafa komið upp á Dal í skjóli rökkursins eftir báðum bökkum árinnar.“
Dvergunum varð ekki svefnsamt um nóttina. Í fölasta morgunroðanum sáu þeir hóp nálgast. Sjálfir stóðu þeir á bak við hlaðna vegginn og sáu hina koma upp úr dalbotninum og leita hægt á brattann. Brátt greindu þeir að þar fóru bæði Vatnamenn vígbúnir til stríðs- og bogmenn álfa. Loksins birtust þeir fyrstu upp um klungrið og klappirnar og bar við fossbrún. Sér til mikillar undrunar sáu aðkomumenn lónið fyrir framan sig og hvernig gert hafði verið að hliðinu með nýrri steinhleðslu.
Meðan þeir stóðu þar patandi og hjalandi hver við annan, kvaddi Þorinn þá: „Hverjir eruð þið,“ kallaði hann þrumandi röddu, „sem komið með ófriði að hliðum Þorins Þráinssonar, Konungs undir Fjalli, og hvað viljið þið?“
En komumennirnir svöruðu engu. Sumir sneru sér þegar við og viku snöggt burt, hinir sem þó stöldruðu við um stund skoðuðu forvitnilega Hliðið og varnir þess, en létu sig síðan hverfa. Um daginn færðu þeir herbúðirnar allar saman á einn stað á austurbakkann, beint á milli Fjallrananna. Klettarnir endurómuðu málklið og söngva þeirra en slíkt hafði ekki gerst um langan aldur að þvílíkt fjölmenni væri saman komið á Dal. Þar mátti líka heyra samhljóma af álfahörpum og blíðri tónlist, og þegar ómarnir bárust upp til hinna í hellinum, var sem svali loftsins yljaðist og þeir fyndu daufan ilm af skógarblómum springa út á vori.
Mikið þráði Bilbó þá að mega sleppa út úr þessu dimma virki og fara niður á dalinn til að taka þátt í gleðskapnum og veisluhöldunum við eldana. Sumir yngri dvergarnir urðu líka mjög snortnir og muldruðu í barm sér að mikið vildu þeir hafa gefið til þess að málin hefðu þróast öðruvísi, svo að þeir hefðu mátt bjóða allt þetta fólk velkomið sem vini. En Þorinn gretti sig og við það var ekki komandi.
Þá sóttu yngri dvergarnir sjálfir hörpur og önnur hljóðfæri úr fjárhirslunni og léku fyrir hann til að reyna að milda skap hans. Það var þó enginn álfasöngur, heldur minnti helst á lagið sem þeir sungu fyrir löngu í hobbitaholu Bilbós.
Konungur undir Fjalli
tekið hefur völd.
Drekinn gráðugi og grimmi
greitt hefur dauðans gjöld.
Konungs sverð er snarpt og biturt,
spjótið langt og örin skjót.
Glampar sól á svásum skildi.
Sigrað hefur hann örlög ljót.
Til forna dvergar hvella hamra
hnituðu við brynjuserk.
Dunduðu þeir við dvergasmíði,
dýrðleg voru þau meistaraverk.
Á silfurhálsbands streng var stráð
stjörnubliki um blómaláð,
í drekaeldsins víraverk
þeir vófu tungls og sólarserk.
Fjallastóllinn frelsis nýtur,
farandþjóð er kölluð heim.
Gullið rautt og græna skóga
gramur úr lófa býður þeim.
Fljótt sem eldur fréttin flýgur,
fer um heiminn bylgja sterk.
„Komið allir kjarnadvergar,
komið að vinna dáðaverk!“
Konungur undir Fjalli
tekið hefur völd..
Drekinn gráðugi og grimmi
greitt hefur dauðans gjöld.
En söngur þeirra virtist falla Þorni vel í geð. Hann gat aftur farið að brosa og varð kátur. Svo fór hann að leggja niður fyrir sér vegalengdina til Járnhóla og hvað langur tími myndi líða áður en Dáinn næði með liðsauka sinn til Fjallsins eina, ef hann hefði lagt af stað strax og boðin bárust honum. En Bilbó hryggðist bæði við sönginn og tal dverganna, sem honum fannst vera alltof herskáir.
Snemma næsta morguns sást flokkur spjótliða vaða yfir ána og koma arkandi upp dalinn. Þeir fylktu sér undir grænum fána álfakóngsins og bláum fána Vatnabúa og linntu ekki för fyrr en þeir stóðu beint fyrir framan hliðvegginn.
Enn kvaddi Þorinn þá hárri röddu: „Hverjir eruð þið sem komið vopnaðir með ófriði að hliðum Þorins Þráinssonar, Konungs undir Fjalli?“ Og í þetta skipti var honum svarað.
Hávaxinn maður steig fram, dökkhærður og harðskeyttur á svip og hann hrópaði: „Heill sé þér Þorinn! Hví girðir þú þig inni sem ræningi í bæli? Þó erum við ekki enn neinir óvinir og við fögnum því að þú skulir gagnstætt vonum enn vera á lífi. Við bjuggumst ekki við að finna neinn hér uppistandandi, en nú þegar við hittumst er mál að við komum saman á ráðstefnu og hefjum samninga.“
„Hver ert þú og um hvað eigum við að semja?“
„Ég er Bárður, sem með eigin hendi felldi drekann og leysti þannig fjársjóð þinn. Skiptir það þig nokkru máli? Auk þess er ég í beinan karllegg afkomandi Girions af Dal og í fjárhaugnum má finna í bland alla þá dýrgripi úr höll og borg sem Smeyginn stal frá honum. Er það ekki nokkuð sem við þyrftum að ræða? Ennfremur eyddi Smeyginn í síðustu orustunni bústöðum fólksins í Ásgerði og er ég fulltrúi Borgarstjóra þeirra. Í hans nafni spyr ég þig hvort þig skipti engu máli sorg og neyð þjóðar hans. Þeir styrktu þig þó þegar þú áttir í nauð og það eina sem þeir fá að launum eru rústir tómar, þó að það sé vissulega ekki vísvitandi þín sök.“
Allt voru þetta fögur orð og sönn, borin fram af vissu stórlæti og harðneskju. Að þeim orðum mæltum þótti Bilbó fyrir sína parta alveg sjálfsagt að Þorinn viðurkenndi allar þessar sanngirniskröfur. Hann bjóst svo sem ekki við að neinn myndi eftir því að það var hann einn sem hafði fundið út veika blettinn á drekanum, og það var kannski eins gott að enginn minntist á það. Hinsvegar reiknaði hann ekki með því ógnarvaldi sem gullið hefur, einkum það gull sem dreki hefur lengi legið á og ekki síst ef dvergahjörtu eiga hlut að máli. Undanfarna daga hafði Þorinn dvalist löngum stundum í fjárhirslunni og ágirnd hans hafði því stöðugt verið að ágerast. Þó að hann væri að vísu lang mest á höttunum eftir sjálfum Erkisteininum, hafði hann líka auga fyrir mörgum öðrum kostagripum sem lágu þar í kös og margir þeirra voru vafðir margháttuðum minningum úr starfi og harmi þjóðar hans.
„Þú taldir lakasta málsstaðinn síðast og settir hann á oddinn,“ svaraði Þorinn. „En eitt vil ég strax taka fram, að enginn á nokkra minnstu kröfu til fjársjóðs þjóðar minnar, því að Smeyginn stal ekki aðeins þessum fjármunum frá okkur, heldur rændi okkur lífi og heimili. Fjársjóðurinn var aldrei eign Smeygins og því verður ekki bætt fyrir gerðir hans með minnsta hluta af honum. Kostnaðinn við þá aðstoð og vistir sem við fengum frá Vatnamönnum munum við greiða að fullu — þegar þar að kemur. En við munum ekkert gefa, ekki einnar brauðsneiðar virði, og allra síst undir hótunum um ofbeldi. Meðan vopnaður her býr um sig framan við dyr okkur, munum við líta á ykkur sem fjendur og þjófa.
Mér er líka ofarlega í huga að spyrja, hvaða arfahlut þið hefðuð úthlutað mínum ættingjum, ef þið hefðuð fyrstir komið að fjársjóðnum óvörðum og okkur dauðum?“
„Það er ekki nema sanngjörn spurning,“ svaraði Bárður. „En þið eruð nú einu sinni ekki dauðir og við erum engir ræningjar. Hitt er mikilvægara að hinir auðugu sýni þeim bágstöddu miskunn framar réttarkröfum, ekki síst þegar þeir liðsinntu ykkur sjálfum í neyð. Og enn er öðrum kröfum mínum ósvarað.“
„Ég mun, eins og ég hef áður sagt, ekkert ráðslag eiga við vopnaða menn fyrir mínum hliðum. Og alls ekki fyrir nokkurn mun við fulltrúa álfakóngsins sem ég get ekki minnst með mikilli góðvild. Á slíkri ráðstefnu á hann engan sess. Hafið ykkur á braut áður en örvar okkar fljúga! Og ef þið viljið nokkuð aftur við mig ræða, þá er ykkur nær að senda þessar álfasveitir aftur inn í skógana þar sem þær eiga heima. Að því uppfylltu getið þið komið aftur og lagt niður vopnin áður en þið nálgist þröskuld minn.“
„Álfakonungurinn er vinur minn og hann gerðist svo góður að liðsinna Vatnafólkinu í neyð af hinni mestu mannúð, þótt engin sérstök vináttutengsl væru þar á milli,“ svaraði Bárður. „Við munum nú gefa þér tíma til að endurskoða og taka aftur orð þín. Leita ráðslags visku þinnar áður en við snúum aftur!“ Að svo búnu hvarf hann á brott og sneri aftur til búða.
Að mörgum stundum liðnum sneru fánaberarnir aftur og lúðraþeytarar komu fram og knúðu trómet sín:
„Í nafni Ásgerðisborgar og Skógarins,“ var hrópað, „mælum við til Þorins Þráinssonar Eikinskjalda, sem kallar sig Konung undir Fjalli, að við biðjum hann vel að íhuga þær kröfur sem skorað hefur verið á hann um, eða heita annars yfirlýstur óvinur vor. Hið minnsta skal hann afhenda Bárði sem drekabana og erfingja Girions tólfta hluta fjársjóðsins. Af þeirri upphæð mun Bárður sjálfur leggja fram hlut til hjálpar Ásgerðingum. En ef Þorinn vildi ávinna sér vináttu og virðingu allra nágranna sinna eins og fornir ættfeður hans gerðu, ætti hann líka að leggja fram sinn hlut til að bæta hag Vatnabúa.“
Þá þreif Þorinn sjálfur boga af stórgripahornum görvan og skaut ör að kallaranum. Hún hæfði skjöld hans og stóð þar dirrandi.
„Fyrst þetta er svar þitt,“ var kallað til baka, „lýsi ég yfir umsátri um Fjallið. Þú munt eigi fá að yfirgefa það, fyrr en þú óskar af þinni hálfu eftir vopnahléi og ráðstefnu. Við berum þig engum vopnum en látum þig eftir hjá gulli þínu og máttu eta það, ef þú hefur lyst á!“
Að svo búnu hurfu sendimennirnir skjótt á brott og dvergarnir voru skildir eftir einir til að íhuga sitt mál. En svo harðsvíraður var Þorinn nú orðinn, að jafnvel þó einhver úr hópnum hefði ekki verið sammála honum, hefði enginn þorað að benda honum á það, en auk þess voru þeir allir einhuga á bandi hans — nema kannski feiti Vambi og þeir Fjalar og Kjalar. Bilbó var hinsvegar að sjálfsögðu algjörlega andsnúinn því hvaða stefnu málin höfðu tekið. Hann hafði þegar fengið meira en nóg af Fjallinu, og það var allra síst að hans smekk að vera nú enn innilokaður og umsetinn í því.
„Hér er alls staðar þessi óþolandi drekadaunn,“ muldraði hann við sjálfan sig, „og mér verður óglatt af honum. Og þetta kram er hreinlega farið að standa í mér.“